7.9.2007 | 16:34
Plötuspilarinn og fegurð
Í plötuspilaranum hefur undanfarið verið spilaðir; Roger William og Andy Williams. Undur fögur og hugljúf tólist. Alveg hreint stórkostlegir. Pabbi rifjaði upp við mig að þeir hafi spilað fyrir okkur tvíburana þegar við vorum oggu litlar. Svo ekki hef ég langt að sækja áhugann á þessari tónlist! :)
Fór á fornar slóðir í dag er ég gekk út í Háskólaprent. Hafði keypt mér Wrigley´s Spearmint tyggjó um morguninn. Sem var vel við hæfi. Því þegar ég var lítil fékk ég oft svoleiðis hjá ömmu og afa á Kvisthaga og bláan ópal. :D Allt þetta og fleira rifjaðist upp á leiðinni. Ásamt því að þar sem Háskólaprent er var einu sinni ,,Kaupmaðurinn á horninu". Man að ég var einu sinni í strætó á leið út í Einarsnes, til hinnar ömmu minnar og afa, þegar bílstjórinn stoppaði þarna og fór inn og fékk sér að borða. Og ég, pínu lítil al ein í strætó, og mér stóð ekkert sérlega á sama. Annars tengi ég þessa búð, fyrrum búð, við Trúðaís með kúlutyggjói. :D
,,OG SKÁLD NOKKURT SAGÐI:
Segðu okkur frá fegurðinni.
Og hann svaraði:
Hvar ættir þú að leita fegurðar og hvernig ættir þú að finna hana, ef hún sjálf er ekki
vegur þinn og leiðarljós?
Og hvernig ættir þú að yrkja um hana,
ef hún er ekki vefari orðsins?
Mæddir menn og þjáðir segja:
,,Fegurðin er ljúf og mild.
Eins og ung móðir, hálffeimin í dýrð sinni,
stígur hún niður meðal vor."
Og hinir kappsfullu segja:
,,Nei, fegurðin er eitthvað ógurlegt og máttugt.
Eins og stórviðri hristir hún jörðina undir fótum okkar og himininn yfir höfði okkar."
Þreyttir menn og lífsleiðir segja:
,,Fegurðin er mjúk og lágróma rödd.
Hún talar í sál okkar.
Rödd hennar fellur inn í þögn okkar eins
og dauft ljós, sem skelfur af ótta við skuggann."
En hinir friðlausu segja:
,,Við höfum heyrt kall hennar milli fjalla,
og í rödd hennar voru ofnir hófaskellir,
vængjagnýr og öskur ljóna."
Á kvöldin segja útverðir borgarinnar:
,,Fegurðin mun rísa í austri í líki morgungyðjunnar."
Og í erfiði dagsins segja verkamenn og
vegfarendur. ,,Við höfum séð hana lúta yfir
jörðina úr gluggum sólsetursins."
Og á veturna segir bóndinn:
,,Hún mun koma yfir roðnandi fjallshnúka
með vor í faðmi."
Og í önnum sumarsins segja kaupmennirnir:
,,Við höfum séð hana dansa í fallandi haustlaufi með jómfrúmjöll í hári."
Allt þetta hafi þið sagt um fegurðina, og þó töluðu þið ekki um hana, heldur um þörf, sem ekki var fullnægt.
Og fegurðin er ekki þörfin, heldur leiftur guðdómsins.
Hún er ekki þorsti eða fátækt, sem biðst afsökunar, heldur er hún sál, slegin eldi, hjarta, heillað af töfrum.
Hún er ekki mynd, sem menn sjá, eða ljóð, sem þeir heyra, heldur er hún mynd, sem lifir í hjartanu, þótt augunum sé lokað, og ljóð sem ómar í sálinni, þó að eyrað nemi ekkert hljóð.
Hún er ekki safinn bak við skorpin börk eða vængjuð ránfuglskló, heldur er hún garður, sem aldrei fölnar, og hópur engla, sem fljúga að eilífu.
Synir og dætur Orphalesu, fegurðin er lífið, þegar lífið tekur blæjuna frá helgu andliti sínu.
En þið eruð lífið og þið eruð blæjan.
Fegurðin er eilífð, sem horfir á sjálfa sig í spegli.
En þið eruð eilífðin og þið eruð spegillinn. "
Kahlil Gibran - Spámaðurinn
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.